Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Myndi fá sér bragðaref og horfa á þátt heima
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 31. október 2021 kl. 07:56

Myndi fá sér bragðaref og horfa á þátt heima

Nafn: Eygló Kristín Óskarsdóttir
Aldur: 20 ára
Treyja númer: 13
Staða á vellinum: Miðherji
Mottó: Stjórnum því sem við getum stjórnað


Eygló Kristín Óskarsdóttir, miðherji Keflavíkur, segir að hún hafi farið að ráðum jafnaldra sinna og byrjað í körfubolta af því að hún var svo hávaxin. Eygló, sem gekk í raðir Keflvíkinga fyrir þetta tímabil, segir í uppleggi vikunnar að hún stefni klárlega á að gera atlögu að titlum með Keflavík.

Hefurðu fasta rútínu á leikdegi?

„Nei, það er í raun aldrei neinn leikdagur alveg eins. Ég passa samt alltaf að sofa vel, borða nóg og að hafa það rólegt yfir daginn svo að ég mæti með næga orku í leikinn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvenær byrjaðir þú í körfu og af hverju valdirðu körfubolta?

„Ég byrjaði að æfa körfubolta þegar ég var átta ára. Alveg frá því ég byrjaði í skóla hef ég verið mikið stærri en flestir jafnaldrar mínir og ég tók bara ráðum frá krökkunum að ég yrði að byrja í körfubolta.“

Hver er besti körfuboltamaður allra tíma?

„Myndi segja að uppáhaldsleikmaðurinn minn sé Lauren Jackson sem spilaði fyrir Seattle Storm í WNBA og ástralska landsliðið.“

Hver er þín helsta fyrirmynd?

„Ég held að amma mín og alnafna, Eygló Óskarsdóttir, sé mín helsta fyrirmynd. Hún er hörkudugleg, hjálpsöm og hugsar ótrúlega vel um fókið í kringum sig.“

Hvert er eftirminnilegasta atvikið á ferlinum?

„Þegar ég komst með KR upp í efstu deild 2018 eftir að hafa farið taplausar í gegnum tímabilið.“

Hver er besti samherjinn?

„Ég get ekki valið eina úr Keflavík, þær eru allar frábærar á sinn hátt og gera allar mikið fyrir liðið.“

Eygló segist ekki geta gert upp á milli liðsfélaga sinna í Keflavík; „þær eru allar frábærar á sinn hátt og gera allar mikið fyrir liðið.“

Hver er erfiðasti andstæðingurinn?

„Ég myndi segja Ásta Júlía í Val af því að hún þekkir mig svo vel, við spiluðum upp yngri flokka í KR og höfum svo verið saman í öllum yngri landsliðum.“

Hver eru markmið þín á þessu tímabili?

„Markmiðið á þessu tímabili er klárlega að gera atlögu að titlum með Keflavík og halda áfram að læra og bæta mig sem leikmaður.“

Hvert stefnir þú sem íþróttamaður?

„Það væri mjög skemmtilegt að prófa að spila í Evrópu í framtíðinni.“

Hvernig væri fimm manna úrvalslið þitt skipað með þér?

„Ég myndi setja saman lið sem er skipað stelpum ég hef spilað mest með í yngri landsliðum og keppt á móti í yngri flokkum í gegnum tíðina: Ásta Júlía Grímsdóttir (Val), Sigrún Björg Ólafsdóttir (Chattanooga), Stefanía Ósk Ólafsdóttir (Fjölnir) og Anna Ingunn Svansdóttir (Keflavík).“

Fjölskylda/maki:

„Ég á frekar stóra nánustu fjölskyldu. Ég á svo líka kærasta og góða tengdafjölskyldu í Keflavík.“

Hvert er þitt helsta afrek fyrir utan körfuboltann?

„Að útskrifast úr MR og komast svo í gegnum inntökupróf í hjúkrunarfræði í HÍ.“

Áttu þér áhugamál fyrir utan körfuboltann?

„Ég hef eiginlega ekki tíma fyrir mikið annað en skóla og körfubolta en mér finnst mjög gaman að ferðast og eyða tíma með vinum og fjölskyldu.“

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerirðu?

„Myndi líklega fá mér bragðaref og horfa á þátt heima.“

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

„Nautakjöt með bakaðri kartöflu er held ég það besta sem ég fæ.“

Ertu öflug í eldhúsinu?

„Já, ég held ég sé ágæt. Er samt líklega betri í bakstri frekar en eldamennsku.“

Býrðu yfir leyndum hæfileika?

„Ekki svo ég viti.“

Er eitthvað sem fer í taugarnar á þér?

„Það fer svolítið í taugarnar á mér þegar það er mikið drasl í kringum mig.“